Ævintýri í kenía 24.Maí-8.júní 2026 

Einstakt tækifæri til að upplifa kenía með heimafólki á frábæru verði!

Ferðalýsing 

“Í byrjun júní fór ég með Ferðasýn til Kenía en það er sú magnaðasta ferð sem ég hef farið í.  Ferðin var mjög vel skipulögð, afslöppuð en mjög fjölbreytt og margt að upplifa þannig að mér leið eins og ferðin hefði staðið yfir í margar vikur!   Söfn, skólaheimsóknir,  safarí, bátsferðir og strönd svo fátt eitt sé nefnt. Ég á pottþétt eftir að fara aftur í ferð með Ferðasýn og mæli 100% með. - Guðný Margrét Hjaltadóttir”

Að ferðast til Kenía er mikið ævintýri. Með áralanga reynslu og innsýn inn í kenískt samfélag bjóðum við upp á fjölbreyttar sérsniðnar ferðir þangað. Ferðirnar okkar eru mikil upplifun og ævintýri sem er samofið náttúrufegurð, dýralífi og menningu Kenía. Ferðamenn fá að kynnast landi og þjóð á einstakan, persónulegan hátt, bæði í höfuðborginni Nairobi og á landsbyggðinni auk þess að kynnast skólastarfi sem Íslenska barnahjálpin rekur.

Ferðin hefst í Nairobi, sem oft er kölluð “græna borgin í sólinni”. Þar kynnumst við ýmsum hliðum borgarinnar, förum á söfn, heimsækju te- og kaffiræktarsvæði, skemmtilega veitingastaði og heimsækjum Harvestskólana sem Íslenska barnahjálpin starfrækir í Nairobi. Gist verður á gistiheimili sem Íslenska barnahjálpin rekur í fallegu lokuðu hverfi.  Frá Nairobi er haldið í friðsælu sveitina í Loitoktok við rætur Kilimanjaro þar sem gist verður í nýbyggðu gistihúsi Íslensku barnahjálparinnar. Þar er mjög góð aðstaða fyrir alla. Hvert herbergi er með sérbaðherbi, stór verönd með ægifögru útsýni, kenískur matur eldaður og varðeldur kveiktur á kvöldin.
Við heimsækjum þar framhaldsskóla sem Íslenska barnahjálpin rekur á svæðinu, kynnumst menningu nemenda og siðum og heimsækjum fjölskyldur þeirra. Tveir flottustu þjóðgarðar Kenía verða skoðaðir og ferðin endar á ströndinni við Indlandshaf í Mombasa.

Heildarverð: 570.000 kr. á mann miðað við tvo í herbergi.
Aukakostnaður fyrir einn í herbergi á hótelum er 45.000 kr.
Innifalið: Flug til Kenía. Öll gisting, allur akstur, lestir og innanlandsflug. Hálft fæði í Nairobi, fullt fæði í Loitoktok og safaríferð, hálft fæði á ströndinni. Aðgangseyrir í þjóðgarða og söfn.
Ekki innifalið: Vegabréfsáritun. Máltíðir á veitingahúsum, kaffihúsum og lest. Drykkir á hótelum, þjórfé og bátsferð.
Fararstjóri: Þórunn Helgadóttir sem hefur búið og starfað í Kenía í yfir 18 ár og Samuel Lusiru Gona frá Kenía.


Ferðaplan:

Dagur 1. Laugardagur 24. Maí
Flogið frá Íslandi í gegnum Oslo og áfram með Qatar airways.

Dagur 2. Sunnudagur 25. Maí Lending í Nairobi.
Gist verður á Harvest gistiheimili Íslensku barnahjálparinnar.

Nairobi

Dagur 3. Mánudagur 26. Maí    
Við tökum okkur tíma til að kynnast heimafólki. Um morguninn fáum við fræðslu frá skemmtilegum fyrirlesara um Keníska menningu. Eftir hádegi verður heimsókn í Harvestskólann í Kariobangi sem Íslenska barnahjálpin rekur. Þar munum við upplifa einstakar kenískar móttökur.
Við borðum kvöldmat heima í húsi.

Dagur 4. Þriðjudagur 27. Maí     
Við heimsækjum Harvestskólann og kynnum okkur skólastarfið betur. Kennarar og starfsfólk taka á móti okkur og við munum líta inn í kennslustundir. Einnig taka nokkrir nemendur skólans á móti okkur á heimilum sínum. Stuðningsaðilar munu fá að heimsækja börnin sín.
Við borðum á skemmtilegum veitingastað um kvöldið.

Dagur 5. Miðvikudagur 28. Maí
Við keyrum til suður-Nairobi á Karen Langatta svæðið.
Við heimsækjum þar gíraffagarðinn og Karen Blixen safnið og borðum á góðum veitingastað í hádeginu.
Kvöldmatur heima í húsi.

Dagur 6. Fimmtudagur 29. Maí 
Við tökum daginn snemma og förum á Þjóðminjasafnið og í snákagarð og kíkjum síðan í indverska hverfið. Um kvöldið verður farið á Safari park hótelið í stóra grillveislu og danssýningu.

Dagur 7. Föstudagur 30. Maí
Við skoðum teakrana í hæðunum fyrir ofan Nairobi. Við heimsækjum býlið þar sem te var fyrst ræktað í Kenía, fræðumst um te og smökkum og borðum heimagerðan hádegismat á býlinu.
Eftir túrinn förum við í Village market verslunarmiðstöðina.

Safarí og Loitoktok

Dagur 8. Laugardagur 31. Maí
Nú verður keyrt til Loitoktok. Við gistum í Ol-doinyo house sem er nýtt gistihús Íslensku barnahjálparinnar og borðum þar hádegismat. Eftir hádegi förum við í heimsókn í skólann sem er þar í göngufæri. Kvöldmatur heima í húsi og varðeldur.

Dagur 9. Sunnudagur 1. júní
Við byrjum daginn á því að sækja sunnudagsmessu nemenda skólans. Það er ótrúlega skemmtileg upplifun. Við kynnumst nemendum betur og eyðum smá tíma með þeim. Förum í leiki og lærum dansa. Seinnipartinn keyrum við út í byggðirnar og heimsækjum Masaai fólkið í þeirra heimabyggð. Varðeldur um kvöldið.

Amboseli Þjóðgarðurinn

Dagur 10. Mánudagur 2. júní
Amboseli þjóðgarðurinn liggur við rætur Kilimanjaro. Hann er stundum kallaður fílahöfuðborg heimsins. Snemma um morguninn förum við í safaríferð um garðinn og skoðum dýralífið. Um hádegisbil er matur á hóteli í garðinum og hægt að fara í sundlaug þar. Í eftirmiðdaginn förum við aftur á stjá að skoða dýralífið. Reynum að koma auga á ljón.
Við förum út úr garðinum um kl. 18.30 og gistum heima í húsi.

Tsavo West þjóðgarðurinn

Dagur 11. Þriðjudagur 3. júní
Lagt af stað í Tsavo West þjóðgarðinn snemma að morgni. Tsavo West er víðfeðmur náttúrugarður. Hann er afskekktur og skartar einstaklega fallegu landslagi. Við komum á hótelið um hádegi og fáum okkur mat, förum í laugina og njótum þessa dásamlega staðar. Í eftirmiðdaginn keyrum við til Mzima springs og förum þar í stuttan göngutúr. Þar má gjarnan koma auga á flóðhesta og krókódíla.

Dagur 12. Miðvikudagur 4. júní
Við leggjum af stað frá hótelinu um morguninn og höldum í átt að Ngutuni Lodge þar sem við komum um miðjan dag. Þar er frábært tækifæri til að fylgjast með dýrunum við vatnsbólið, fara í sund og jafnvel fara í smá safarí akstur til að reyna að koma auga á ljón.

Keníska ströndin - Indlandshafið

Dagur 13. Fimmtudagur 5. júní
Við höldum ferðalaginu áfram niður að Indlandshafinu. 
Þar munum við gista á flottu fjögurra stjörnu hóteli við ströndina með öllum gæðum.

Dagur 14. Föstudagur 6. júní
Slökunardagur á hótelinu. Hægt er að nota tímann til dæmis fyrir spa á hótelinu, fara í skoðunarferð, kíkja í búðir, fara í bátsferð og snorkl eða fara á bak á kameldýri á ströndinni.
Kvöldmatur á hótelinu eða við förum út að borða á spennandi stað.

Dagur 15. Laugardagur 7. júní
Frjáls dagur og tími til að gera allt það sem ekki náðist að gera daginn áður, t.d. skoðunarferðir eða slaka á við ströndina. Kvöldmatur á hótelinu.

Dagur 16. Sunnudagur 8. Júní  
Eftir morgunmatinn tékkum við út af hótelinu og förum í skoðunarferð til borgarinnar Mombasa þar sem við skoðum gamla bæinn og fræðumst um merkilega sögu svæðisins.
Seinnipartinn tökum við klukkutíma flug til Nairobi.
Flug aftur til Íslands um kvöldið með Qatar í gegnum Oslo.
Lent á Íslandi seinnipartinn 9. júní.