Golf og safarí um páskana 25.mars.-8.apríl

Verð: 690.000 kr á mann í tveggja manna herbergi 770.000 kr fyrir einstaklings herbergi

“Ferðin með Ferðasýn til Kenía var algjörlega mögnuð. Persónuleg fararstjórn Þórunnar og Sammy veitti okkur ómetanlega innsýn inn í menninguna og aðstæður fólks í landinu. Golfvellirnir koma á óvart fyrir að vera á pari við bestu golfvelli í Evrópu. Heimafólkið var alúðlegt, kurteist og alltaf til í að hjálpa. Hitinn var aldrei óþægilegur og maturinn var alltaf frábær hvort sem hann var dæmigerður kenískur eða evrópskur. Spurningin er ekki hvort heldur hvenær ég fer aftur með Ferðasýn til Kenía! Davor Purusic”

“Kenía er engri lík! Ferðin með Ferðasýn var svo miklu meira en bara golfferð þó vissulega væru vellirnir fyrsta flokks og allar aðstæður til fyrirmyndar. Nálægðin við fíla, gíraffa, sebrahesta og öll hin hitabeltisdýrin í safaríunum var mögnuð upplifun. Áhrifaríkust voru þó kynnin af fólkinu sjálfu, menningu þess og aðstæðum. Keníabúar eru með eindæmum gestrisnir, hlýir, kurteisir og léttir í lund. Börnin stálu hjarta mínu með kurteisi sinni, dugnaði og jákvæðni gagnvart því að deila kenískri menningu með gestunum. Kynni mín af fólkinu í Kenía breytti ekki aðeins skynjun minni á Afríku heldur sjálfri mér. Enginn kemur óbreyttur frá Kenía!  Anna Gunnhildur Ólafsdóttir”

Kenía er stórkostlegt land að heimsækja. Í þessari ferð kynnumst við landi og þjóð á einstakan hátt. Við kynnumst höfuðborginni Nairobi, sem gjarnan er kölluð “græna borgin í sólinni”. Þar er að finna einstaklega fallega golfvelli, skemmtilega veitingastaði og kaffihús, flott söfn og magnað fjölbreytt mannlíf. 

Gisting í Nairobi er á Windsor Golf Hotel, sem er 4 stjörnu hótel, hannað í gömlum breskum herragarðsstíl með afrískum áhrifum. Á Windsor er einstaklega fallegur 18 holu golfvöllur. Öll herbergin eru með frábæru útsýni yfir golfvöllinn. Á hótelinu er einnig líkamsræktaraðstaða, upphituð sundlaug, nudd og snyrtistofa, flottur veitingastaður og bistro við sundlaugina.

Loftslagið í Nairobi er sérlega milt og þægilegt, sem skapar kjöraðstæður fyrir golf. Borgin er í um 1600-1700 metra hæð og því verður aldrei of heitt. Hitastigið í janúar er frá um 17 gráðum á nóttunni og upp í um 26 gráður eftir hádegi. Þunna loftið í þessari hæð gerir það að verkum að golfkúlan svífur að jafnaði 10 metrum lengra. Það er mikil hefð fyrir golfi í Kenía þar sem Bretar komu með golfið til Kenía og fyrsti golfvöllurinn var byggður árið 1913. Vellirnir eru sérlega fallegir í náttúrulegu umhverfi með skemmtilegum sérkennum og áskorunum. Á öllum völlum er spilað með caddýum sem sjálfir eru golfarar sem hafa mikla reynslu af golfi og völlunum.

Í ferðinni er einnig farið í safarí í þjóðgarðana Amboseli og Tsavo West.
Auk þess heimsækjum við Loitoktok við rætur Kilimanjaro, hæsta fjalls Afríku. Gist er á fjögurra stjörnu safaríhótelum.

Innifalið: Flug frá Íslandi til Kenía með einni tösku og golfsetti. Gisting með hálfu fæði á golfhóteli Nairobi. Níu 18 holu golfhringir með caddy. Allur ferðakostnaður innanlands í Kenía. Gisting með fullu fæði í safarí, safaríbílar, aðgangseyrir í tvo þjóðgarða. Lest til Nairobi.

Ekki innifalið: Vegabréfsáritun. Ein máltíð á dag í Nairobi. Drykkir og þjórfé. Aðgangseyrir á söfn, teskoðunarferð og kaffiskoðunarferð. 

Aukagjald fyrir einn í herbergi: 120.000 kr. Verð án golfs: 590.000 kr.

Fararstjórar eru Þórunn Helgadóttir sem hefur búið og starfað í Kenía í 18 ár og maður hennar Samuel Lusiru Gona frá Kenía.

Ferðaáætlun:

Dagur 1. Miðvikudagur 25. mars - Brottför frá Íslandi
Flogið frá í Keflavík til Evrópuborgar, t.d. Kaupmannahafnar eða Oslo og þaðan til Doha í Qatar og áfram til Nairobi.

Dagur 2. Fimmtudagur 26. mars - Lending í Nairobi
Lending snemma að morgni, farið á hótel og hvíld fram yfir hádegi. Seinnipartinn er golfhringur eitt á Windsor.

Dagur 3. Föstudagur 27. mars - Golfhringur tvö á Windsor.
Eftir golfleik er kjörið að njóta lífsins á veitingastað hótelsins sem er með útsýni yfir völlinn eða slaka á við laugina.

Dagur 4. Laugardagur 28. mars - Hringur þrjú á Windsor.
Eftir hádegi er kjörið að fara í kaffitúr á Hótel Windsor þar sem 500 ekrur af kaffirækt eru á landareigninni. Allt kaffi á Windsor er því ræktað, þurrkað og ristað á staðnum. Við förum í skoðunarferð á kaffiakrana, fræðumst um kaffið, sjáum það ristað og smökkum.

Dagur 5. Sunnudagur 29. mars - Hringur fjögur á Windsor.
Eftir hádegi kynnumst við borginni betur og skreppum líka í nálæga verslunarmiðstöð.

Dagur 6. Mánudagur 30. mars - Hringur fimm á Muthaiga Golf Club
Nú prófum við Muthaiga golfvöllinn, einstaklega glæsilegan völl í fögru skóglendi þar sem Kenya Open er haldið árlega. Eftir hádegi verður boðið uppá ævintýralega heimsókn í Harvestskólann sem Íslenska barnahjálpin rekur í Nairobi.

Dagur 7. Þriðjudagur 31. mars - Hringur sex Golf á Muthaiga Golf Club

Dagur 8. Miðvikudagur 1. apríl - Hringur sjö á Karen golf club.
Við keyrum til suðurhluta Nairobi og prófum Karen golfvöllinn, sem er á landi Karenar Blixen, hins fræga danska rithöfundar. Völlurinn er mjög fallegur hefur verið kosinn vinsælasti golfvöllurinn í Nairobi ár eftir ár. Eftir golfið heimsækjum við Karen Blixen safnið sem er á heimili hennar þar sem Óskarsverðlaunamyndin “Out of Africa” var tekin upp.

Dagur 9. Fimmtudagur 2. apríl - Hringur átta á Muthaiga Golf Club

Dagur 10. Föstudagur 3. apríl - Teræktarsvæðið - Hringur níu á Windsor
Þennan morgun er kjörið að fara í ferð á teræktarsvæðin í Tigoni og þar er borðaður hádegismatur. Seinnipartinn er golf á Windsor.

Safarí og Loitoktok

Dagur 11. Laugardagur 4. apríl - Loitoktok
Um morguninn keyrum við til Loitoktok sem liggur við rætur Kilimanjaro. Ef vel viðrar þá sést fjallið vel. Þar býr Masaai fólkið og það er heilmikil upplifun að kynnast heimafólki og menningu þeirra. Við komuna til Loitoktok bíður hádegisverður í Oldoinoyo house við rætur fjallsins. Eftir hádegismat þá heimsækjum við Masaai fólkið og fræðast meira um líf þeirra og menningu. Að þeirri heimsókn lokinni er farið á safari hótel við innganginn á Amboseli þjóðgarðinn. Það er um 30 mínútna akstur þangað. Hótelið er tjaldhótel með lúxustjöldum sem eru eins og hótelherbergi með baðherbergi og öllu tilheyrandi innan tjaldsins.

Amboseli Þjóðgarðurinn

Dagur 12. Sunnudagur 5. apríl - Safarí
Nú er farið á fætur mjög snemma til að fara inn í Amboseli þjóðgarðinn. Amboseli er stundum kallaður fílahöfuðborg heimsins vegna stóru fílahjarðanna sem þar halda til. Hann er líka frægur fyrir gríðarlega fjölbreytt dýralíf af öllu tagi og það er mjög margt að sjá.  Um morguninn er farin safaríferð um garðinn. Um hádegi er farið aftur á hótelið þar sem er hlaðborð. Einnig er tími til að fara í laugina. Seinnipartinn er svo aftur farið inn í garðinn. Oft er þá tækifæri til að koma auga á ljón.

Tsavo West þjóðgarðurinn

Dagur 13. Mánudagur 6. apríl - Safarí
Lagt af stað í Tsavo West þjóðgarðinn snemma að morgni. Tsavo West er víðfeðmur náttúrugarður. Hann er afskekktur og skartar einstaklega fallegu landslagi. Við komum á hótelið um hádegi og fáum okkur mat, förum í laugina og njótum þessa dásamlega staðar. Í eftirmiðdaginn keyrum við til Mzima springs og förum þar í stuttan göngutúr. Þar má gjarnan koma auga á flóðhesta og krókódíla.

Dagur 14. Þriðjudagur 7. apríl - Heimferð

Við förum út úr garðinum og tökum lestina að morgni til Nairobi. Þar höfum við tíma til að slaka aðeins á seinnipartinn og undirbúa okkur fyrir flug að kvöldi, heim til Íslands. Lent á Íslandi eftir hádegi miðvikudaginn 8. apríl.

Bóka ferð