Golf og safarí 7.-24.Maí 2026

Verð miðað við tvo í herbergi: 750.000 kr

“Ferðin með Ferðasýn til Kenía var algjörlega mögnuð. Persónuleg fararstjórn Þórunnar og Samma veitti okkur ómetanlega innsýn inn í menninguna og aðstæður fólks í landinu. Golfvellirnir koma á óvart fyrir að vera á pari við bestu golfvelli í Evrópu. Heimafólkið var alúðlegt, kurteist og alltaf til í að hjálpa. Hitinn var aldrei óþægilegur og maturinn var alltaf frábær hvort sem hann var dæmigerður kenískur eða evrópskur. Spurningin er ekki hvort heldur hvenær ég fer aftur með Ferðasýn til Kenía! - Davor Purusic”

Kenía er stórkostlegt land að heimsækja. Í þessari ferð kynnumst við landi og þjóð á einstakan hátt. Við kynnumst höfuðborginni Nairobi, sem gjarnan er kölluð “græna borgin í sólinni”. Þar er að finna einstaklega fallega golfvelli, skemmtilega veitingastaði og kaffihús, flott söfn og magnað fjölbreytt mannlíf.   

Gisting í Nairobi er á Windsor Golf Hotel, sem er 5 stjörnu hótel, hannað í gömlum breskum herragarðsstíl með afrískum áhrifum. Á Windsor er að finna glæsilegan 18 holu golfvöll. Öll herbergin eru með frábæru útsýni yfir golfvöllinn. Á hótelinu er einnig líkamsræktraðstaða, upphituð sundlaug, nudd og snyrtistofa, flottur veitingastaður og bistro við sundlaugina. Windsor er sérlega fallegur golfvöllur. Hann er par 72 og liggur í gegnum skóglendi og gamlar kaffiekrur þar sem er mikið fugla, og dýralíf.
Apar eru fastagestir á vellinum. Skógurinn gerir það að verkum að næsta hola kemur aðeins í ljós við komu á næsta teig, fyrir utan holu 1 og 18 sem eru á opnum grænum bölum. Það eru vel yfir sjötíu glompur á vellinum.

Loftslagið í Nairobi er einstaklega milt og þægilegt, sem skapar kjöraðstæður fyrir golf. Borgin er í um 1600-1700 metra hæð og því verður aldrei of heitt. Hitastigið í janúar er frá um 17 gráður á nóttunni og upp í 26-27 gráður eftir hádegi. Þunna loftið gerir það að verkum að golfkúlan svífur að jafnaði 10 metrum lengra. Það er mikil hefð fyrir golfi í Kenía þar sem Bretar komu með golfið til Kenía og fyrsti golfvöllurinn var byggður árið 1913. Vellirnir eru einstaklega fallegir í náttúrulegu umhverfi með skemmtilegum sérkennum og áskorunum.

Ferðin endar á safaríferð í tvo af flottustu þjóðgörðum Kenía, Amboseli og Tsavo West. Þá gistum við á fjögurra stjörnu safaríhótelum. Við heimsækjum einnig Loitoktok við rætur Kilimanjaro, hæsta fjalls Afríku.

Verð: 750.000 kr. á mann miðað við tvo í herbergi í hálfu fæði og 9 golfhringjum.
Innifalið: Flug frá Íslandi til Kenía. Öll gisting með morgunverði og einni máltíð (kvöldverði eða hádegisverði). 10-11 golfhringir með caddy. Aðgangseyrir á Karen Blixen safnið. Allur ferðakostnaður innanlands.
Aðgangur og leiðsögn í safarígarða og safaríhótel.
Verð án golfs: 650.000 kr.
Aukagjald fyrir einn í herpergi: 120.000 kr.
Ekki innifalið:
Vegabréfsáritun. Ein máltíð á dag. Drykkir og þjórfé.
Fararstjóri er Þórunn Helgadóttir sem hefur búið og starfað í Kenía í 18 ár.

Ferðaáætlun:

Dagur 1. Fimmtudagur 7. maí - Brottför frá Íslandi
Flogið frá í Keflavík til Evrópuborgar, t.d. Kaupmannahafnar eða Oslo og þaðan til Qatar og áfram til Nairobi.

Dagur 2. Föstudagur 8. maí - Lending í Nairobi
Lending snemma að morgni.
Farið á hótel og hvíld fram yfir hádegi. Seinnipartinn er fyrsti golfhringurinn. Hringur eitt á Windsor - 9 holur eða 18 holur fyrir þá sem vilja.

Dagur 3. Laugardagur 9. maí - Golf á Windsor
Hringur tvö á Windsor.
Hringur tvö á Windsor. Eftir golfið er kjörið að njóta lífsins á veitingastaðnum sem er með útsýni yfir völlinn eða slaka á við laugina.

Dagur 4. Sunnudagur 10. maí - Golf á Windsor
Hringur þrjú á Windsor. Eftir hádegi er boðið upp á ferð í nálæga verslunarmiðstöð þar sem er gaman að slaka og skoða mannlífið.

Dagur 5. Mánudagur  11. maí - Golf á Muthaiga golf club
Hringur fjögur. Nú prófum við Muthaiga golfvöllinn, glæsilegan völl í fögru skóglendi þar sem Kenya Open er haldið árlega. 
Eftir hádegi verður boðið uppá heimsókn í Harvestskólann sem Íslenska barnahjálpin rekur í Nairobi.

Dagur 6. Þriðjudagur 12. maí - Muthaiga Golf club
Hringur fimm á Muthaiga Golf club. Eftir hádegi er í boði að fara í kaffitúr á Hótel Windsor þar sem 500 ekrur af kaffirækt eru á landareigninni. Allt kaffi á Windsor er því ræktað, þurrkað og ristað á staðnum. Við förum í skoðunarferð á kaffiakrana, fræðumst um kaffið, sjáum það ristað og smökkum.

Dagur 7. Miðvikudagur 13. maí - Karen golf club
Hringur sex á Karen. Við keyrum til suðurhluta Nairobi og prófum Karen golfvöllinn, sem er á landi Karenar Blixen, hins heimsfræga danska rithöfundar. Völlurinn er mjög fallegur og hefur verið kosinn vinsælasti golfvöllurinn í Nairobi ár eftir ár. Eftir golfið heimsækjum við Karen Blixen safnið sem er á heimili hennar, en þar var Óskarsverðlaunamyndin “Out of Africa"  tekin upp.

Dagur 8. Fimmtudagur 14. maí - Windsor
Hringur sjö á Windsor

Dagur 9. Föstudagur 15. maí - Teakrarnir - Windsor
Um morguninn heimsækjum við hið gríðarlega fallega teræaktarsvæði í Tigoni. Fræðumst um teræktina og borðum þar hádegismat.
Seinnipartinn er hringur átta á Windsor.

Dagur 10. Laugardagur 16. maí  - Windsor
Hringur átta á Windsor

Safarí og Loitoktok

Dagur 11. Sunnudagur 17. maí  - Golf á Muthaiga Golf club

Um morguninn keyrum við til Loitoktok. Við gistum í Ol-doinyo house sem er nýlegt gistihús Íslensku barnahjálparinnar og borðum þar hádegismat.
Eftir hádegi förum við í heimsókn í skólann sem er þar í göngufæri.
Kvöldmatur heima í húsi og varðeldur.

Amboseli Þjóðgarðurinn

Dagur 12. Mánudagur 18. maí
Amboseli þjóðgarðurinn liggur við rætur Kilimanjaro og því ekki í langri fjarlægð frá gistiheimilinu. Hann er stundum kallaður fílahöfuðborg heimsins. Snemma um morguninn förum við í safaríferð um garðinn og skoðum dýralífið. Um kl. 12.30 förum við á hótel í garðinum og borðum þar hádegismat. Þeir sem vilja geta farið í laugina. Við slökum á á hótelinu til um kl. 15.30. Þá förum við aftur á stjá að skoða dýralífið og komum mögulega auga á ljón sem fara oft á stjá í eftirmiðdaginn. Við förum út úr garðinum um kl. 18.30 og gistum heima í húsi.

Tsavo West þjóðgarðurinn

Dagur 13. Þriðjudagur 19. maí
Lagt af stað í Tsavo West þjóðgarðinn snemma að morgni. Tsavo West er víðfeðmur náttúrugarður. Hann er afskekktur og skartar einstaklega fallegu landslagi. Við komum á hótelið um hádegi og fáum okkur mat, förum í laugina og njótum þessa dásamlega staðar. Í eftirmiðdaginn keyrum við til Mzima springs og förum þar í stuttan göngutúr. Þar má gjarnan koma auga á flóðhesta og krókódíla.

Ngutuni

Dagur 14. Miðvikudagur 20. maí
Við leggjum af stað frá hótelinu um morguninn og höldum í átt að Ngutuni Lodge þar sem við komum um miðjan dag. Þar er frábært tækifæri til að fylgjast með dýrum við vatnsbólið í mikilli nálægð, fara í sund og möguleiki á fara í smá safarí akstur til að reyna að koma auga á ljón.

Keníska ströndin - Vipingo ridge golf club

Dagur 15. Fimmtudagur 21. maí
Hringur níu á Vipingo.
Vipingo Ridge völlurinn er staðsettur við strönd Indlandshafs. Mikið dýralíf er í kringum völlinn og algengt að sjá sebrahesta, antilópur og gíraffa. Gisting er í flottum golf villum á vellinum. 

Dagur 16. Föstudagur 22. maí
Hringur tíu á Vipingo

Dagur 17. Laugardagur 23. maí
Hringur ellefu á Vipingo. Flogið heim til Íslands um kvöldið

Dagur 18. Sunnudagur 24. maí  
Lent á Íslandi seinnipartinn .

Bóka ferð